Norðurlöndin eru fyrirmynd

Við sjáum ítrekað að Ísland, Danmörk, Finnland, Noregur og Svíþjóð eru efst á listum sem fjalla um hvar í heiminum er best að búa.

Fyrir flest okkar er mikilvægast að hafa fasta vinnu, peninga til að lifa fyrir, góðan stað að búa á, gott samfélag, menntun, heilbrigði, fjölskyldu og vini. Öruggt land.

Á Norðurlöndum hefur okkur, áratug eftir áratug, tekist að auka tekjur, fjölga störfum, auðvelda fólki að vinna samhliða því að sinna litlum börnum sínum og við höfum dregið úr fátækt.

Mörg okkar taka þessu sem sjálfsögðum hlut. Það er þó ekki svo. Ástæða þessa er hvernig við höfum byggt samfélög okkar upp og þar hefur verkalýðshreyfingin spilað stórt hlutverk. Þetta er það sem við köllum Norræna líkanið.

1920

1921 Vinnutími

Vökulögin 1921 voru fyrsti stóri sigur hins unga Alþýðusambands. Fram að því voru engin takmörk fyrir því hversu lengi var hægt að láta fólk vinna. Dæmi vorum að sjómenn á togurum stæðu sólarhringum saman í aðgerð og að hásetar hafi dottið sofandi ofan í kösina með hníf í hendi eftir slíka þrælavinnu. Þetta vinnuálag gekk vitanlega mjög nærri líkamlegri heilsu manna enda entust þeir ekki nema örfá ár við slík störf. Sjómennirnir létu þetta yfir sig ganga vegna ótta við atvinnumissi. Vökulögin tryggðu 6 tíma lágmarkshvíld á sólarhring á togurum.

Prentarar náðu þeim sögulega árangri í samningum 1920 að semja um 8 stunda vinnudag sex daga vikunnar.

Um 1940 var sú tilhögun orðin almenn á vinnumarkaði, þ.e. 48 stunda vinnuvika.

Það var ekki fyrr en 1972 að 40 stunda vinnuvikan var lögfest og þar með dró verulega úr vinnu fólks á laugardögum.

1929 Húsnæði

Ekkert eitt viðfangsefni – fyrir utan baráttuna um kaup og kjör – hafi verið jafn fyrirferðamikið hjá verkalýðshreyfingunni og húsnæðismálin.

Eitt af fyrstu baráttumálum Alþýðuflokksins, sem þá var hluti af ASÍ, var frumvarp til laga um verkamannabústaði. Árið 1928 sýndi rannsókn á húsnæðismálum í Reykjavík að þriðjungur íbúða í bænum voru annaðhvort kjallara- eða súðaíbúðir og margar þeirra heilsuspillandi.

Árið 1929 setti Alþingi lög um byggingu verkamannabústaða. Fljótlega á eftir risu verkamannabústaðir, m.a. mörg hús við Hringbraut í Reykjavík sem voru alger bylting.

Í kjölfar lagasetningarinnar voru stofnuð byggingafélög verkamanna víða um land og síðar byggingasjóður verkamanna sem stóð fyrir byggingu þúsunda íbúða fram á 8. áratug síðustu aldar. Breiðholtið er er annað gott dæmi um þessar framkvæmdir en þær verða seint metnar til fulls.

Á 100 ára afmæli sínu 2016 stofnaði ASÍ, Bjarg – íbúðarfélag. Bjarg er húsnæðissjálfseignastofnun sem er rekin án hagnaðarmarkmiða og er ætlað að tryggja aðgengi að hagkvæmu, öruggu og vönduðu íbúðarhúsnæði í langtímaleigu. Um er að ræða leiguheimili að danskri fyrirmynd “Almene boliger”.

1930

1936 Almannatrygginar

Uppbygging velferðarkerfisins hefur verið stórt verkefni sem ASÍ hefur tekið mikinn þátt í.

Fyrstu lögin um almannatryggingar voru sett 1936 eftir margra ára þref á þingi. Andstæðingar verkamanna héldu því meira að segja fram í fullri alvöru að almennileg samfélagsþjónusta myndi ýta undir veikindi og leti.

Með almannatryggingunum var viðurkennt að allir í samfélaginu bæru ábyrgð á að framfleyta þeim sem ekki höfðu tök á því sjálfir. Til dæmis fólki sem lenti í slysi, veiktist eða missti vinnuna.

Með endurskoðun á lögunum um almannatryggingar 1946 var félagslegt öryggi sett í öndvegi og bótarétturinn rýmkaður.

1940

1942 Orlof

Á árum seinni heimstyrjaldarinnar varð skyndilega mikil eftirspurn eftir vinnuafli og í því ástandi náði verkalýðshreyfingin fram ýmsum mikilvægum baráttumálum. Eitt af þeim var 12 daga sumarleyfi sem var mikill sigur á þessum tíma.

Til að verkafólk gæti nýtt þetta nýfengna frí fóru verkalýðsfélögin að byggja upp sumarbústaði víða um land og lána tjöld til útilegu.

Orlofið var lengt í 18 daga eftir verkfallsátök 14 árum síðar.

Lágmarksorlof einstaklings í fullri vinnu árið 2017 er 24 dagar á ári.

1950

1956 Atvinnuleysistryggingar

Eftir harðvítugt sex vikna verkfall árið 1956 náðist sigur í gömlu baráttumáli verkalýðshreyfingarinnar um atvinnuleysisbætur. Frumvarp til laga um atvinnuleysistryggingar hafði verið flutt á hverju þingi í 14 ár en alltaf verið fellt eða svæft í nefnd.

Sigur í þessu baráttumáli hefur haft mikil áhrif til langs tíma.

Grunn atvinnuleysisbætur 1. janúar 2017 voru 217.208 kr. á mánuði miðað við 100% bótarétt.

1957 Fæðingarorlof

Starfsstúlknafélagið Sókn náði þeim mikilsverða áfanga í kjarasamningi sínum árið 1957 að samið var um þriggja mánaða fæðingarorlof á launum fyrir þær konur sem höfðu unnið fjögur ár eða lengur innan ramma félagsins. Sókn var fyrsta verkakvennafélagið sem náði þessum áfanga.

Það var fallist á þessa kröfu án mikilla átaka og var ástæðan ekki síst sú að félagsmálaráðherrann var jafnframt forseti ASÍ.

Árið 1960 tók þing ASÍ undir kröfu þess efnis að allar vinnandi konur ættu rétt á þriggja mánaða fæðingarorlofi á fullum launum, eins og tíðkaðist hjá þeim konum sem unnu hjá ríkinu.

Lög um feðraorlof voru sett árið 2000. Feðraorlofinu var fyrst og fremst ætlað að koma á jafnvægi milli karla og kvenna á heimilinu og á vinnumarkaðinum. Feðraorlofið er mikilvægt skref í átt að jafnrétti kynjanna.

Fæðingarorlof á launum er nú 9 mánuðir og geta foreldrar skipt þeim á milli sín.

1960

1962 Jafnrétti

Í upphafi 20. aldar bjuggu konur við mikið harðræði í vinnu og fengu mun lægri laun en karlar.

Mörg dæmi voru um karla og konur sem báru sömu fiskbörurnar en annað var með helmingi lægri laun en hitt. Snemma fjölluðu verkalýðsfélög um mikilvægi þess að bæta aðstæður kvenna og á þingi ASÍ 1930 var samþykkt ályktun um að konur og unglingar sem ynnu sömu störf og karlmenn skyldu fá sömu laun.

Hannibal Valdimarsson, þáverandi forseti ASÍ, flutti fyrstur frumvarp á þingi 1948-49 um jafnrétti karla og kvenna í launamálum. Frumvarp Hannibals um launajafnrétti var samþykkt í sjöttu atrennu árið 1962.

Þrátt fyrir að launajafnrétti hafi verið lögbundið í rúma hálfa öld er enn langt í land og sannarlega verk að vinna. Á undanförnum 10 árum hefur ASÍ tekið þátt í þróun jafnlaunastaðals sem er ætlað að auka launajafnrétti í landinu.

1969 Lífeyrissjóðir

Í kjarasamningum árið 1969 náðist samkomulag um að koma á fót lífeyrissjóðum á almennum vinnumarkaði.

Þegar ASÍ samdi um lífeyrisréttindi fyrir almennt launafólk var ellilífeyrir almannatrygginga sem nemur 25% af dagvinnulaunum verkamanna. Á þeim árum var það algerlega ljóst að enginn gat séð sér farborða af slíkum greiðslum og voru eldri borgarar því háðir afkomendum sínum eða sveitarfélögunum um framfærslu í ellinni.

Lífeyrissjóðirnir eru grundvallaðir á samtryggingu og samhjálp. Þeim er ætlað að tryggja félögum sínum, mökum og börnum, sómasamlega afkomu ef atvinnutekjur bregðast, vegna elli, örorku eða andláts. Réttur til lífeyris úr sjóðunum eykst eftir því sem meira og lengur er greitt til þeirra.

Við leggjum saman í sjóð sem er ávaxtaður til að greiða okkur öllum lífeyri til æviloka. Vaxtatekjur mynda þannig yfir helminginn af útborguðum lífeyri. Þannig er lífeyrir framtíðarinnar tryggður með traustum sjóði fremur en vaxandi skattbyrði á afkomendur okkar. Þetta er einn mesti styrkur íslenska lífeyrissjóðakerfisins.

1970

1979 Sjúkrasjóðir

Á sjöunda áratugnum var samið um sjúkrasjóði í almennum kjarasamningum og allmörg stéttarfélög stofnuðu slíka sjóði. Með lögum um sjúkrasjóði árið 1979 var atvinnurekendum gert skylt að greiða a.m.k. 1% af útborguðu kaupi í sjúkrasjóð. Tilgangur sjúkrasjóða er fyrst og fremst að greiða félagsmönnum bætur í sjúkra- og slysatilfellum eftir að launagreiðslum frá atvinnurekanda líkur.

Sjúkrasjóðir stéttarfélaganna veita félagsmönnum sínum auk þess margvíslegan stuðning vegna heilsuræktar, lyfjakostnaðar, sjúkraþjálfunar, sálfræðimeðferðar, gleraugnakaupa og umfangsmikilla tannviðgerða svo dæmi séu tekin.

Á seinni árum hefur verkalýðshreyfingin náð árangri í málum eins og stofnun Virk – starfsendurhæfingarsjóðs, annað tækifæri til náms auk þess að berjast gegn undirboðum á vinnumarkaði þar sem útlendingar og ungt fólk eru helstu fórnarlömbin.